14. október 2007

Eigið þér annað epli?

Ég fór reiður út af þessari mynd. Það hefur komið fyrir að mér sé sama um aðalpersónuna en þessi maður fór virkilega í taugarnar á mér. Í bæklingnum stóð að myndin væri full af dásamlegum atriðum en annað kom á daginn.

Myndin fjallar um ónytjung sem hugsar ekki um annað en mat. Í byrjun sjáum við móður hans lemja hann með priki því hann nennir ekki að vinna. Hún sendir hann burt til að leita sér kvonfangs.

Fyrst kemur hann að þorpi þar sem allir þykjast vera sofandi vegna þess að það er eina leiðin til að komast hjá handtöku. Kúgunarstjórn landsins setur furðuleg lög og handtekur alla þá sem fara ekki eftir þeim. Maðurinn tekur þá til við að vekja allt þorpið vegna þess að hann er svangur. Hann fær að borða en svo koma svartstakkarnir og handtaka alla nema hann og stúlku sem flýr með honum.

Þau lenda í ýmiss konar klípum, m.a. að vera grafin lifandi (sjá mynd), en þá reynir hann að næla sér í epli frekar en að bjarga stúlkunni. Svona skilur hann eftir sig sviðna jörð hvar sem hann fer og ömurleikinn nær hámarki þegar hann sannfærir heilt þorp um að flýja ekki, heldur vera um kyrrt og berjast við svartstakkana. Þorpsbúar hafa yfir að ráða tréspjótum en svartstakkarnir aka um með byssur á mótorhjólum. Það fór eins og það fór.

Ég fann svo sannarlega ekki til samkenndar með eiginhagsmunaseggnum sem myndin fjallar um heldur var ég farinn að svartstakkarnir myndu handtaka hann svo að hann gerði ekkert fleira illt af sér. Hann færir ástandið sífellt úr öskunni í eldinn en slapp alltaf því hann hleypur svo hratt. Mér fannst myndin flott þangað til aðalpersónan opnaði munninn. Og talandi um að opna munninn þá glumdi í salnum þegar hann talaði í einu atriðinu, einnig voru "foley" hljóð hér og þar svo hátt stillt að þau voru óþægileg.

Þó hafði ég á tilfinningunni að þessi fáránlegu lög sem stjórnuðu hegðun þorpsbúanna væru ádeila á alræðisstjórnir en mér fannst hún heldur ónákvæm. Ég vissi ekki hvort það var átt við stjórnina í heimalandi leikstjórans eða Bandaríkjastjórn eða eitthvað annað. Einnig vil ég benda á það að ádeilan kemst ekki til skila ef fólk hættir að horfa vegna ógeðfelldrar aðalpersónu.

Að mínu mati er þetta pirrandi og langdregin mynd.

Andlit fíkjutrésins

Þessi mynd var frekar spes.
Hún fjallar um fjögurra manna japanska fjölskyldu. Fjölskyldufaðirinn gistir í leiguíbúð til þess að geta gert við kraðak af rörum sem hann hafði sett upp mörgum árum áður. Það á að leggja lóðina undir aðra byggingu og hann er hræddur um að vera kærður fyrir hrákasmíðina þegar menn koma að skoða lóðina. Þegar hann er búinn að því labbar hann heim, sem vekur spurningar um hvers vegna hann þurfti að gista í leiguíbúðinni, en kannski er það til að hitta stúlkuna í glugganum á móti íbúðinni.

Fjölskyldufaðirinn er skýrasta og litríkasta persónan og það er skemmtilegt að fylgjast með hvað hann geri næst. Hann stjórnar atburðarrásinni þangað til hann fellur frá, og þá snýst frásögnin um eftirköst dauða hans. Aðrar persónur eins og móðirin og dóttirin hafa ekki eins skýr markmið; hlutirnir koma bara fyrir þær og þær reyna að takast á við þá.

Í myndinni eru nokkrar kvöldmatarsenur með skemmtilegum samtölum milli persónanna. Samtölin eru sterkasta hlið myndarinnar og sýna karakter persónanna, jafnvel þegar þær tala um hversdagslega hluti eins og uppáhaldsmat húsbóndans, smokkfiskainnyfli. Myndin er líka skemmtilega tekin og litrík.

Annars skildi ég ekki alveg tréð sem tákn í myndinni, því það blómstraði aldrei fyrr en fjölskyldufaðirinn var dáinn og konan komin með nýjan mann. Mér sýndist fjölskyldulífið vera barasta ágætt á meðan pabbinn var enn til staðar. Tréð blómstraði að vísu þegar dóttirin var lítil, og hún missti af fíkjunum vegna þess að pabbi hennar hafði borðað þær allar áður en hún vaknaði einn morguninn. Kannski var það hann sem kom í veg fyrir að fjölskylda hans og tréð blómstruðu.

Brotthvarf föðurins gerir hlutina þó ekki betri, bara öðruvísi, því að þótt tréð blómstri og dóttirin eignist barn, þá vill hún ekki fara í heimsókn til móður sinnar nú þegar hún er komin með nýjan mann. Mamman hverfur líka af og til inn í fortíðina og þá verður ekkert tjónkað við hana. Það er því erfitt að segja til um hver boðskapurinn sé, nema þá að fjölskyldan er það sem skiptir mestu máli.

Allt í allt; áhugaverð mynd sem batnar við það að pæla í henni eftir á.

27. september 2007

Veðramót

Veðramót kom mér ánægjulega á óvart. Sýnishornið af myndinni var allt annað en spennandi og þegar ég settist inn í Háskólabíó átti ég hálfvegis von á hæggengri mynd með stirðum sviðsleik, en í staðinn lenti ég í magnaðri bíóupplifun.

Leikurinn er látlaus og það er stígandi í myndinni sem heldur athyglinni allan tímann. Góðum tíma er eytt í að kynna persónur og aðstæður, svo að maður veit hvar maður stendur hverju sinni og manni er alls ekki sama þegar persónunum lendir saman. Hver persóna hegðar sér eftir eigin sannfæringu, en þær eru mjög mismunandi og átök milli persóna eru regla frekar en undantekning. Guðný hefur gott vald á frásögninni og bæði hún og leikararnir þekkja persónurnar út og inn.

Maður fær aldrei að sjá alla söguna, eins og t.d. hvers konar meðferð gerði Samma eins skemmdan og hann er. Þannig verður manni umhugað um vesalings vistmennina og forvitinn um fortíð þeirra. Einnig er maður meðvitaður um að hér er ekki hreinn uppspuni á ferð heldur leynist skelfilegur sannleikur á bak við skáldskapinn.

Tónlist Ragnhildar Gísladóttur rennur saman við myndina og eykur áhrif myndarinnar til muna. Kvikmyndatakan er falleg án þess að draga athygli að sér og leikmynd og búningar eru svo vel útfærð að maður tekur ekki eftir þeim. Það liggur greinilega mikil vinna og ástríða að baki þessari stórgóðu íslensku mynd.

Gunnar Björn Guðmundsson leikstjóri

Það var gaman að fá ráð hjá manni sem hafði byrjað, eins og við á námskeiðinu, í stuttmyndagerð og er nú búinn að gera sína fyrstu bíómynd í fullri lengd. Allt ferlið, frá handritaskrifum til fjármögnunar og framleiðslu, tók um sex ár, en það hefur svo sannarlega borgað sig, því að Astrópía er orðin vinsælasta mynd ársins. Gunnar sagði okkur að handritið skipti langmestu máli í kvikmyndagerðinni og að ekki sé hægt að gera góða mynd upp úr slöppu handriti. Og ef maður er búinn að skipuleggja allt vel fyrir tökur, þá á maður að fara yfir allt einu sinni enn og skipuleggja það aðeins betur. Á tökustað kemur nefninlega alltaf eitthvað óvænt upp á og því betra sem skipulagið er, þeim mun auðveldara er að hafa yfirsýn yfir verkefnið og breyta atriðum eftir þörfum.

Það sem ég er sérstaklega ánægður með í sambandi við Astrópíu er að tölvubrellum var haldið í lágmarki og flestallt var gert í alvöru fyrir framan myndavélina. Það var frábært að fá að vita hversu einfalt trikk var notað þegar veggirnir falla og Hildur fer inn í ævintýraheiminn, en þá var leikmyndin einfaldlega færð upp á fjall og veggirnir látnir falla! Auðvitað er það allt annað en einfalt í framkvæmd, en það virkar bara svo miklu betur en allar tölvubrellur.

Gunnari fannst greinilega mikilvægt að koma því á framfæri að stuttmyndin sé ekki bara æfing fyrir upprennandi kvikmyndagerðarmenn, heldur listform út af fyrir sig, eins og smásagan. Og þetta er mjög skemmtilegt form, þar sem er hægt að segja litla sögu, koma hugmynd á framfæri eða bregða upp svipmynd af einu einstöku augnabliki, nú eða allt þetta í einu. Stuttmyndinni er líka ekki sett eins fastar skorður og kvikmyndum í fullri lengd, en í gegnum tíðina hafa áhorfendur komið sér upp hugmyndum um hvernig góð bíómynd sé uppbyggð, og þær myndir sem falla ekki undir þann ramma fá ekki einu sinni tækifæri. Stuttmynd þarf ekki að vera í þremur þáttum eða flétta saman örlög allra persónanna í lokin eða komast að ákveðinni niðurstöðu. Það er því hægt að gera alls konar tilraunir, en það á að taka þær alvarlega og gera þær almennilega, því persónulega nenni ég ekki að horfa á mynd sem myndasmiðurinn hefur ekki vandað sig við að gera.

Gunnar fékk Edduna fyrir stuttmynd sína Karamellumyndina og mig hefur lengi langað til að sjá hana, en ég hef aldrei fengið tækifæri til þess. Mér finnst vanta vettvang til að sjá og sýna stuttmyndir, en t.d. væri tilvalið að bjóða upp á valdar stuttmyndir í hlaðvarpi mbl.is.

Myndbandið frumsýnt

Gaman á settinu

Nú hefur biðin loksins borgað sig. Myndbandið Ragnarök var frumsýnt í Íslandi í dag mánudaginn 10. september og ég fékk að vita það með þriggja tíma fyrirvara, og var þá kominn í vinnuna eftir skóla. Sem betur fer fékk ég nú frí til að sjá um síðasta liðinn í myndbandsgerðinni, sem er að dreifa því og kynna það. Myndbandið má síns lítils ef enginn sér það. Hér má sjá viðtalið og myndbandið. Þeir klipptu aðeins aftan af myndbandinu í þættinum en það er í fullri lengd á Youtube.
Að mínu mati er tónlistarmyndbandið fegursta form auglýsinga. Það gegnir alltaf því hlutverki að kynna hljómsveitina og tónlist hennar, en myndbandið getur samt sem áður verið listaverk í sjálfu sér, og suðupottur margra skrýtinna og skemmtilegra hugmynda sem sjást ekki annars staðar.
Hljómsveitin Thingtak ætlar að halda frumsýningartónleika á Fjörukránni laugardaginn 29. september kl. 11 og þar verða allir víkingarnir í sínum fínustu skrautklæðum. Þið eruð auðvitað allir velkomnir, það verður rokkað á kránni!

19. september 2007

Stuttmyndamaraþonið



Miðvikudaginn 12. september fengu ég, Bjössi, Emil og Marinó myndavélina til þess að búa til mynd. Við ákváðum að búa til trailer fyrir spennumynd og reyna að hugsa eins og markaðsmenn og reyna að gera eitthvað sem virkaði spennandi og gæfi loforð um töff mynd. Það var hringt á nokkra staði og útvegaður bíll til að komast á milli staða og pókerborð. Það er ótrúlega mikilvægt að þakka fyrir svona hluti og segja fólki hvað maður ætlar að gera því að annars finnst fólkinu að það hafi verið notað. Virkar augljóst, en margir hafa klikkað á þessu atriði og fallið í ónáð hjá viðkomandi.
Við tókum myndina upp á um fjórum tímum samtals og útkoman varð tæplega fjögurra mínútna trailer. Síðan settum við saman hljóðrás með tónlist og tali og þurftum margar tilraunir áður en það tókst að flytja hljóðið inn á spóluna.
Við gerð myndarinnar komumst við að því að tíminn er alltaf þáttur sem þarf að taka með í reikninginn í kvikmyndagerð. Áhorfandinn þarf að fá að sjá myndina á tilsettum tíma, sama hvað hefur farið úrskeðis í tökunum. Annar mikilvægur faktor er að ætla sér ekki um of, og það verður að vera hægt að taka upp myndina með fólki, stöðum og hlutum sem maður hefur aðgang að. Nema maður hafi þeim mun meiri tíma og peninga. Allt eru þetta hlutir sem þarf að pæla í áður en maður ræðst í að gera næstu mynd.

Annars varð útkoman nokkuð skemmtileg, og hröð klipping undir lokin skapaði spennu, a.m.k. hjá mér. Það tókst að hafa samhengi í trailernum, og skapa einfalda karaktera sem takast á. Þetta lofar góðu með stuttmyndina sem verður gerð í vor.

Astrópía

Astrópía er um margt sérstök bíómynd. Hún fjallar um Hildi, ofdekraða módelstelpu sem þarf í fyrsta sinn að fá sér alvöru vinnu þegar kærastinn hennar lendir í fangelsi. Hún sækir um í spilabúð og sogast inn í hinn framandi heim hlutverkaspilanna í fylgd föruneytis skrautlegra nörda.
Myndin er metnaðarfull tilraun til þess að gera fyrstu íslensku ævintýramyndina, með algjöru lágmarksfjármagni.
Þó er það sem myndin líður fyrir aðallega persónusköpunin, en aðalpersónan vakti ekki samúð mína, aðallega vegna nokkurs ofleiks á mikilvægum augnablikum. Hins vegar fannst mér Dagur vera heilsteypt og áhugaverð persóna sem hélt uppi myndinni að mestu leyti. Skemmtilegri en flestir brandararnir í handritinu fannst mér vandræðagangur Dags og hversu óþægilega honum leið í eigin skinni, þegar hann var ekki í ævintýraheiminum.
Annars höfðaði ævintýraheimurinn ekki mikið til mín þótt ég hafi almennt gaman af ævintýramyndum. Ástæðan er að maður vissi að þetta var aðeins ímyndun og ekkert raunverulegt var að veði og því varð ævintýraheimurinn kraftlaus. Svo hefði ég frekar viljað sjá endinn gerast í alvöruheiminum, því að það var ekki almennilega búið að setja upp leikreglurnar í hlutverkaleiknum og því varð lítið "payoff" í lokin, þó að þau næðu að sigra vondu karlana.
Annars var myndin skemmtilega ýkt og oft fyndin, og er prýðisskemmtun, sérstaklega fyrir þá sem hafa aðeins kynnst þessum heimi, sem geta skemmt sér við að þekkja tilvitnanir úr hinum ýmsu tölvuleikjum og spilum. Ég vona að við fáum að sjá fleiri íslenskar ævintýra- og þjóðsögumyndir í framtíðinni, í kjölfar vinsælda Astrópíu. Kannski það verði einhver á námskeiðinu sem tekur af skarið?

8. september 2007

American Movie: The Making of Northwestern


Viðfangsefni heimildarmyndarinnar American Movie er Mark Borchardt, kvikmyndagerðarmaður af lífi og sál sem býr við aðstæður þar sem fólk rétt skrimtir á verkamannalaunum. Mark lifið með hausinn uppi í skýjunum og allt hans líf snýst um að gera kvikmyndina Northwestern á gamla 16mm Bolex vél, svo að aðrir þættir í lífi hans, svo sem konan hans og börnin tvö, eiga það til að verða útundan í hamaganginum.
Seigla Marks þegar á móti blæs er heillandi, því að hann heldur sinni stefnu ár eftir ár, sama hvað gengur á í einkalífinu, hvað sem þarf til að geta klárað kvikmyndina sína.
Mark tekst að sannfæra alla vini sína um að bjóða fram vinnu sína svo að draumur Marks geti ræst. Það er að ákveðnu leyti það sem leikstjóri þarf að gera, hann þarf að vera drífandi afl, sérstaklega þegar allir hinir eru við það að gefast upp. Eftir þriggja ára vinnu frumsýnir Mark Coven og sýnir að þolinmæðin borgar sig. Það skiptir ekki máli hversu langan tíma vinnslan tekur, ef maður er ánægður með útkomuna þá er allt baslið þess virði. Í fyrsta atriði myndarinnar birtist hinn hrumi frændi Marks, Bill Borchardt, og fer með setningu sem lýsir bröltinu í heild sinni, bæði vegna innihaldsins og vegna þess að það þurfti um þrjátíu tökur til að ná henni: "It's all right, it's okay, there's something to live for, Jesus told me so!"
Þrátt fyrir að hafa alltaf efast um gróðamöguleika myndarinnar eftirlætur Bill Mark 50.000 dollara til að klára Northwestern, fyrstu alvörubíómynd Marks. Þar er lexían fyrir okkur hina: aðeins ef maður hefur ástríðu fyrir því sem maður er að gera getur maður gert eitthvað af viti, og fengið fólk í lið með sér.
Og Mark er ekki eins vitlaus og hann lítur út fyrir að vera, það sem maður fær að sjá úr myndunum hans er flott og hefur ákveðinn persónulegan stíl. Maður spyr sig hvort öðrum leikstjórum hefði nokkuð tekist betur til í þessum aðstæðum. Það vantar a.m.k. ekki atriði inn í eins og í sumum íslenskum ævintýramyndum(...), Mark leggur mikla áherslu á það. Frekar bíður hann eftir næsta tækifæri til að taka upp. Hann er enn að bíða.

2. september 2007

Ragnarök


Á myndinni eru (frá vinstri) ég, Jón Arnar Magnússon og Stefán Andri Stefánsson.

Við eyddum einni stífri helgi í tökur á tónlistarmyndbandi við lagið Ragnarök með hljómsveitinni Thingtaki núna í vor. Thingtak er ný íslensk hljómsveit, meðlimir eru:

Hrafnkell Brimar Hallmundarson: Gítar/raddir,
Stefán Jakobsson: Söngur/bassi og
Sverrir Páll Snorrason: Trommur/slagverk.

Ég hitti Jón Arnar í gegnum dvoted og hann hjálpaði mér að einfalda handritið að myndbandinu, var myndatökumaður og leyfði mér að nota sína glæsilegu hdv tökuvél og tölvu með Final Cut Pro. Við leigðum fjóra rauðhausa (ljóskastara) hjá Saga film og fengum strák sem heitir Steinar til að vera ljósamaður. Hann hefur sjálfur gert um 30 stuttmyndir, miklu fleiri en ég hef sjálfur gert.
Ég og Hrafnkell mættum svo á skylmingaæfingu hjá víkingafélaginu Rimmugýgi og þeir tóku vel í það að leika í myndbandinu. Jóhannes, eigandi Fjörukrárinnar, sagði að auðvitað ættum við að taka myndbandið á Fjörukránni, þegar við spurðum um leyfi. Allir sem við töluðum við voru almennilegheitin uppmáluð og voru mjög spenntir fyrir verkefninu. Ég tók langan tíma í að klippa myndbandið því að ekkert lá á þar sem lagið er á plötu sem var gefin út á síðasta ári. Ég get með sanni sagt að þetta sé það langflottasta sem ég hef gert. Nú er ekkert annað eftir en að sýna myndbandið í sjónvarpi, og síðan mun ég auðvitað birta það hér.