27. september 2007

Veðramót

Veðramót kom mér ánægjulega á óvart. Sýnishornið af myndinni var allt annað en spennandi og þegar ég settist inn í Háskólabíó átti ég hálfvegis von á hæggengri mynd með stirðum sviðsleik, en í staðinn lenti ég í magnaðri bíóupplifun.

Leikurinn er látlaus og það er stígandi í myndinni sem heldur athyglinni allan tímann. Góðum tíma er eytt í að kynna persónur og aðstæður, svo að maður veit hvar maður stendur hverju sinni og manni er alls ekki sama þegar persónunum lendir saman. Hver persóna hegðar sér eftir eigin sannfæringu, en þær eru mjög mismunandi og átök milli persóna eru regla frekar en undantekning. Guðný hefur gott vald á frásögninni og bæði hún og leikararnir þekkja persónurnar út og inn.

Maður fær aldrei að sjá alla söguna, eins og t.d. hvers konar meðferð gerði Samma eins skemmdan og hann er. Þannig verður manni umhugað um vesalings vistmennina og forvitinn um fortíð þeirra. Einnig er maður meðvitaður um að hér er ekki hreinn uppspuni á ferð heldur leynist skelfilegur sannleikur á bak við skáldskapinn.

Tónlist Ragnhildar Gísladóttur rennur saman við myndina og eykur áhrif myndarinnar til muna. Kvikmyndatakan er falleg án þess að draga athygli að sér og leikmynd og búningar eru svo vel útfærð að maður tekur ekki eftir þeim. Það liggur greinilega mikil vinna og ástríða að baki þessari stórgóðu íslensku mynd.

Engin ummæli: