Astrópía er um margt sérstök bíómynd. Hún fjallar um Hildi, ofdekraða módelstelpu sem þarf í fyrsta sinn að fá sér alvöru vinnu þegar kærastinn hennar lendir í fangelsi. Hún sækir um í spilabúð og sogast inn í hinn framandi heim hlutverkaspilanna í fylgd föruneytis skrautlegra nörda.
Myndin er metnaðarfull tilraun til þess að gera fyrstu íslensku ævintýramyndina, með algjöru lágmarksfjármagni.
Þó er það sem myndin líður fyrir aðallega persónusköpunin, en aðalpersónan vakti ekki samúð mína, aðallega vegna nokkurs ofleiks á mikilvægum augnablikum. Hins vegar fannst mér Dagur vera heilsteypt og áhugaverð persóna sem hélt uppi myndinni að mestu leyti. Skemmtilegri en flestir brandararnir í handritinu fannst mér vandræðagangur Dags og hversu óþægilega honum leið í eigin skinni, þegar hann var ekki í ævintýraheiminum.
Annars höfðaði ævintýraheimurinn ekki mikið til mín þótt ég hafi almennt gaman af ævintýramyndum. Ástæðan er að maður vissi að þetta var aðeins ímyndun og ekkert raunverulegt var að veði og því varð ævintýraheimurinn kraftlaus. Svo hefði ég frekar viljað sjá endinn gerast í alvöruheiminum, því að það var ekki almennilega búið að setja upp leikreglurnar í hlutverkaleiknum og því varð lítið "payoff" í lokin, þó að þau næðu að sigra vondu karlana.
Annars var myndin skemmtilega ýkt og oft fyndin, og er prýðisskemmtun, sérstaklega fyrir þá sem hafa aðeins kynnst þessum heimi, sem geta skemmt sér við að þekkja tilvitnanir úr hinum ýmsu tölvuleikjum og spilum. Ég vona að við fáum að sjá fleiri íslenskar ævintýra- og þjóðsögumyndir í framtíðinni, í kjölfar vinsælda Astrópíu. Kannski það verði einhver á námskeiðinu sem tekur af skarið?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli