19. september 2007

Stuttmyndamaraþonið



Miðvikudaginn 12. september fengu ég, Bjössi, Emil og Marinó myndavélina til þess að búa til mynd. Við ákváðum að búa til trailer fyrir spennumynd og reyna að hugsa eins og markaðsmenn og reyna að gera eitthvað sem virkaði spennandi og gæfi loforð um töff mynd. Það var hringt á nokkra staði og útvegaður bíll til að komast á milli staða og pókerborð. Það er ótrúlega mikilvægt að þakka fyrir svona hluti og segja fólki hvað maður ætlar að gera því að annars finnst fólkinu að það hafi verið notað. Virkar augljóst, en margir hafa klikkað á þessu atriði og fallið í ónáð hjá viðkomandi.
Við tókum myndina upp á um fjórum tímum samtals og útkoman varð tæplega fjögurra mínútna trailer. Síðan settum við saman hljóðrás með tónlist og tali og þurftum margar tilraunir áður en það tókst að flytja hljóðið inn á spóluna.
Við gerð myndarinnar komumst við að því að tíminn er alltaf þáttur sem þarf að taka með í reikninginn í kvikmyndagerð. Áhorfandinn þarf að fá að sjá myndina á tilsettum tíma, sama hvað hefur farið úrskeðis í tökunum. Annar mikilvægur faktor er að ætla sér ekki um of, og það verður að vera hægt að taka upp myndina með fólki, stöðum og hlutum sem maður hefur aðgang að. Nema maður hafi þeim mun meiri tíma og peninga. Allt eru þetta hlutir sem þarf að pæla í áður en maður ræðst í að gera næstu mynd.

Annars varð útkoman nokkuð skemmtileg, og hröð klipping undir lokin skapaði spennu, a.m.k. hjá mér. Það tókst að hafa samhengi í trailernum, og skapa einfalda karaktera sem takast á. Þetta lofar góðu með stuttmyndina sem verður gerð í vor.

Engin ummæli: