
Það sem ég er sérstaklega ánægður með í sambandi við Astrópíu er að tölvubrellum var haldið í lágmarki og flestallt var gert í alvöru fyrir framan myndavélina. Það var frábært að fá að vita hversu einfalt trikk var notað þegar veggirnir falla og Hildur fer inn í ævintýraheiminn, en þá var leikmyndin einfaldlega færð upp á fjall og veggirnir látnir falla! Auðvitað er það allt annað en einfalt í framkvæmd, en það virkar bara svo miklu betur en allar tölvubrellur.
Gunnari fannst greinilega mikilvægt að koma því á framfæri að stuttmyndin sé ekki bara æfing fyrir upprennandi kvikmyndagerðarmenn, heldur listform út af fyrir sig, eins og smásagan. Og þetta er mjög skemmtilegt form, þar sem er hægt að segja litla sögu, koma hugmynd á framfæri eða bregða upp svipmynd af einu einstöku augnabliki, nú eða allt þetta í einu. Stuttmyndinni er líka ekki sett eins fastar skorður og kvikmyndum í fullri lengd, en í gegnum tíðina hafa áhorfendur komið sér upp hugmyndum um hvernig góð bíómynd sé uppbyggð, og þær myndir sem falla ekki undir þann ramma fá ekki einu sinni tækifæri. Stuttmynd þarf ekki að vera í þremur þáttum eða flétta saman örlög allra persónanna í lokin eða komast að ákveðinni niðurstöðu. Það er því hægt að gera alls konar tilraunir, en það á að taka þær alvarlega og gera þær almennilega, því persónulega nenni ég ekki að horfa á mynd sem myndasmiðurinn hefur ekki vandað sig við að gera.
Gunnar fékk Edduna fyrir stuttmynd sína Karamellumyndina og mig hefur lengi langað til að sjá hana, en ég hef aldrei fengið tækifæri til þess. Mér finnst vanta vettvang til að sjá og sýna stuttmyndir, en t.d. væri tilvalið að bjóða upp á valdar stuttmyndir í hlaðvarpi mbl.is.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli